JFK

The wonderful world of John

Monday, October 31, 2005

Brjálað að gera...

... en frekar tíðindalaus dagur. Mætti galvaskur í skólann kl átta í morgun og byrjaði að lesa fyrir Jessup. Allt í einu leit ég upp og þá var kl orðinn ellefu, sem kom alveg flatt uppá mig. Tíminn líður þegar maður skemmtir sér.
Það er annars komið gott skrið á hópinn og allir verða klárari með hverri mínótuni sem líður.

En sem fyrr segir, það gerðist ekki margt annað í dag. Samt leiddist mér ekkert.
Skrítið.

Ma og Pa komu heim frá danaveldi í gær. Húsið stóð og bíllinn var í lagi (ég bar ábyrgð á þessu tvennu á meðan þau voru erlendis) og ég er ekki frá því að það hafi komið þeim skemmtilega á óvart.

Pabbi á milljón bækur, ca. Ég er búinn að tuða í pabba í ca 3 ár og lýsa yfir undrun minni á því að Hitchikers guide to the Galaxy skuli ekki vera ein af þessum billjón bókum. Kallinn hefur greinilega verið kominn með nóg af vælinu í mér og skellti sér á eina í Danmörk sem að hann gaf mér.

Tæknilega séð gaf hann mér hana ekki samt. Hann rétti mér bókina og sagði að ég mætti fá hana lánaða. En mín kenning er sú að ef að foreldrar manns fara til útlanda þá ber þeim lagaleg og siðferðisleg skylda til þess að kaupa gjöf handa afkomendum. Þar sem að ég er einn af afkomendum þá á ég samkvæmt þessu klárlega heimtingu á gjöf. Eitthvað virðist þetta hafa skolast til hjá þeim gömlu þannig að ég ætla að leggja hald á bókina og tel mig í fullum rétti til þess.

Varnaðarorð: Ekki rífast við laganema sem hefur gaman af því að tuða. Aldrei.

Þá er þetta gott á mánudegi vííííííí

JFK

p.s. það kann að vera að virðuleiki þessa bloggs minnki eilítið við öllum þessum víííí-um og þannig krappi. ......oh well, who gives a hoot!

Sunday, October 30, 2005

Happy day

Ég er glaður, voða voða glaður. Þegar ég fór með mözduna góðu á föstudaginn var ég búinn að undirbúa mig andlega. Ég var búinn að sætta mig við aðskilnaðinn og þá köldu staðreynd að mazdan þyrfti að deyja. Hvað gerist þegar ég arka inn á "Aðstoð"? Góði maðurinn bauðst til þess að kaupa hana (mözduna). Fyrir sama pening og maður fær fyrir að skila inn bílum sem eru 15.000 kr.

Þetta gladdi mig endalaust mikið því að nú fær mazdan að skrölta um götur bæjarins aðeins lengur.

Annars hefur þessi helgi verið með ágætum. Var að vinna með Zigga og Holy Johansen. Það sem stendur uppúr eftir þessa helgi er hinsvegar tónleikarnir sem að ég fór á í gær. Gargandi schnilld. Friðrik Ómar er að mínu mati eitt best geymda leyndarmál Íslands. Þessi drengur getur sungið. Það get ég reyndar líka, bara ekki jafnvel.
Það var troðfullt í sjallanum og feiknar stemmning. Eftir að tónleikum lauk fórum við Halla og tengdó heim til SiggaRún og Helenu og kepptum í Buzz. Hvað er Buzz kunna nú margir að spyrja? Jú Buzz er leikur í playstation sem gengur út á að svara spurningum um tónlist. Allir keppendur fá "bjöllu" og þetta er bara eins og ekta keppni. Þrælgaman, góð skemmtun.

Annars er bíókvöld framundan með Dressmann og er stefnt að því að sjá Zorro. Það verður vonandi alveg meiriháttar.

Svo verður vikan tekinn í stífan undirbúning fyrir Jessup. Liðið er búið að fá úthlutuðum stofum frá 8 til 16 út vikuna og ég verð að lýsa yfir ánægju með þann stuðning sem við erum að fá frá fulltrúum skólans. Ekki veitir af.

Hef þetta ekki lengra þann daginn, hilsen
JFK

Friday, October 28, 2005

*bleep* veður

Já úti er skíta veður. Vaknaði og mér var skítkalt. Núna furða lesendur sig kannski á af hverju ég *bleepaði* í fyrirsögninni en nota svo "skíta" vilt og galið í textanum. Ég furða mig reyndar á því líka....

Anywho, þá er föstudagur framundan og ég sé fram á að eyða honum að miklu leyti í skólanum. Loksins segi ég. Ha? segja þá sumir. Jú þegar maður hefur verið veikur þá er skólinn eins og guðsgjöf. Jessup liðið mitt ætlar semsagt að hittast í dag og erum við (þau því að ég var veikur) búinn að tryggja okkur fundarherbergi einusinni í viku fram að keppni.
Það er semsagt komið í ljós að við keppum við HÍ áður en að haldið verður til USA og er það í raun hið besta mál. Fáum við smá æfingu áður en að við förum út.
Hinsvegar er tíminn knappur því að einungis eru tæpar 3 vikur þangað til að við mætumst. En það er allt í lagi því að ég þrífst á pressu. Ég meina það, ég geri það.

Í kvöld verður svo lífinu tekið rólega, ætla að baka pizzu og chilla fyrir framan tv með Höllu minni.
Svo er vinna um helgina með ZiggaPí og Helgu sem er algott.

Wellster hef þetta ekki meira í bili,
JFK

Thursday, October 27, 2005

Krappetikrapp

ég er veikur og mér leiðist. Það er bara ekkert svo spennandi að vera veikur. Miðað við það sem ég er að lesa á blogginu hans Zigga þá er stórgaman í skólanum og ég sit bara á rassinum og bora í nefið. Andskotinn hafi það.

Svo voru mamma og pabbi að fljúga til Danaveldis í morgun þannig að ég tók að mér að gæta bíls og bú ásamt Höllu minni.

Ég og Halla mín ætlum að skella okkur á Elvis-show-ið um helgina og það örlar fyrir spenningi. Fór til Dalvíkur í sumar á tónleika með Friðriki Ómari og verð að viðurkenna að ég skemmti mér stórvel. Því eru væntingarnar fyrir þessa skemmtun í hærri kantinum.

Annars geta glöggir lesendur séð af þessum pistli að ég hef nákvæmlega ekkert að segja. Meira að segja mér leiðist þegar ég les þetta yfir.
Ég biðst því afsökunar á þessu krappetíkrappi og reyni kannski aftur seinna í dag.

Avúhú, JFK

Tuesday, October 25, 2005

Nýr fjölskyldu meðlimur

Núna hafa sennilega einhverjir fengið áfall og ég er nokkuð viss um að það sé verið að blása lífi í mömmu. Ég er ekki óléttur, ég endurtek, ekki óléttur.
Nýi fjölskyldumeðlimurinn sem getið er um í fyrirsögninni er semsé Toyota Carina sem ég fór og náði í suður (það er ástæða bloggleysis, vona að Kolla sofi vært í nótt)

Ég skellt mér semsagt suður á sunnudag og var að koma heim í dag. Bíllinn er eins og hversmanns hugljúfi og ekkert nema gott um hann að segja. Þetta þýðir hinsvegar að mazdan hefur verið dæmd til dauða og það finnst mér sárt. Þessi bíll hefur undanfarin þrjú ár verið einn af mínum bestu vinum og staðið sig miklu betur en hann hefði þurft. Það verður því með ekka og tárum sem félaginn verður kvaddur.

Ég hafði þó sérstaklega gaman að því að ná að hitta flesta vini mína sem fluttir eru í borg óttans. Fékk meira að segja kjúklingasúpu hjá Allý sem var alveg meiriháttar. Eini gallinn á því er sá að mér var nánast lofað að tíu ár myndu líða þar til að mér yrði boðið upp á það aftur. Hjá Jóa og Dundu fékk ég að gista og það var gaman, sérstaklega í ljósi þess að Jói er búinn að fá sér playstation.

Samt virðist engu máli skipta hversu lengi eða stutt ég stoppa fyrir sunnan, mér finnst alltaf jafn gott að koma heim.

En nú taka við fastir liðir eins og venjulega og skóli og vinna og ég veit ekki hvað og hvað. Ljósi punkturinn er að sjálfsögðu að bloggið verður uppfært reglulega víííííííí
JFK

Friday, October 21, 2005

Lilly?

Í pistlinum hér á undan commentaði konukind er kallar sig Lilly, segist vera dönsk og þar af leiðandi ekki skilja mikið hvað hér fer fram. Gott og vel. Ally benti á að spamvörnin mín væri eitthvað að klikka og ég var alveg á því og fór að blóta spamvörninni í sand og ösku.
En bíðið við... ef þið klikkið á nafnið Lilly þá poppar bara þessi fínasta bloggsíða, ekki auglýsing um viagra eða álíka þarfaþing.

Þetta leiddi mig til að hugsa, er fólk að vafra um á netinu í leit að blogsíðum annarra? Svo virðist vera (allaveganna þessi Lilly). Fyrstu viðbrögð mín við þessu voru í neikvæðari kanntinum en svo áttaði ég mig á því að þetta er fyllilega eðlilegt og Lilly er eflaust ósköp venjuleg danadjöflastúlka.

Ég held þessari blogsíðu út vegna þess að ég hef gaman að því og ég lifi í þeirri veiku von að vinir mínir og kunningjar slysist hingað inn og hafi einnig eitthvert gaman að. Ef að danadjöflar (og fólk almennt frá norðurlöndunum) vill njóta þessa hugverka minna þá ætla ég ekki að banna þeim það. Það væri samt góður draumur að geta blokkað út norðurlöndin, ha Allý ;)

Eftir stendur samt einn punktur; Lilly segist vera dönsk. Ég hef ekki ástæðu til að rengja það. Er ekki svoltið "excercicse in futility" að ætla þá að lesa síðu á íslensku. Ég sé það ekki gerast að ég ráfi inn á síðu sem að skiptinemi frá Jemen heldur úti og geti hreinlega ekki hamið commentaþörf mína vegna þess að mér finnst síðan svo falleg. Skítt með það sem stendur í blogginu og þá staðreynd að ég get ekki fyrir mitt litla líf gert nokkurn greinarmun á því hvort að hann sé að skrifa um nýja fína Yarisinn sinn eða útrýmingu allra Svía. Ef síðan er "falleg" þá commenta ég. Ég held ekki.

Að öllu þessu sögðu þá þótti mér vænt um commentið frá Lilly.

Nú er ég hinsvegar staddur uppí skóla að kikka á compromið úr Jessup. Halla mín ætlar að koma á eftir en hún var að brillera í áfanga sem að hún var að klára. Þetta fyrirkomulag er fínt. Ég sulla í gegnum lögfræði hálf kærulaus og næ að tala fólk til að gefa mér þessa BA-gráðu. Halla lærir eins og rolla á ritalíni og ef að ég lendi í vandræðum seinna mér (þegar ég kominn út á vinnumarkaðinn og farinn að vinna sem lögfræðingur, guð hjálpi okkur öllum) þá spyr ég bara Höllu mína.

Þetta var innsýn í huga Jóns Fannars á föstudegi
lifið heil
JFK

Thursday, October 20, 2005

Áfanga lokið

Þá er enn einum áfanganum í átt að lögfræðigráðu lokið. Var sem sagt í lokaprófi í dag sem að var allt að því skemmtilegt að eiga við. Fékk sendar prófspurningar kl 10 í morgun og átti að skila inn kl 15 í dag. Það gekk eftir.
Verð að segja að mér líkar vel að taka próf sem þessi. Fæ tvær spurningar og er undir smá pressu með að klára.

Svo sendi ég tannlækninn minn til þess að skoða bíl sem að minnst var á í fyrri færslu. Honum leyst bara helv... vel á hann þannig að ég ætla suður að athuga málið á sunnudag eða mánudag (ef gripurinn verður ekki seldur fyrir þann tíma). Langt síðan ég hef farið suður þannig að það er ekki laust við smá spenning. Taka bara mp3 spilarann með því þá leiðist mér ekki á leiðinni.

Svo er góð helgi framundan sem hefst á vísindaferð annaðkvöld og verður vonandi fylgt eftir með kallaklúbbskvöldi. Ásgeir var með einhverjar meiningar en það verður vonandi hægt að tala kallinn til.
Fékk svo póst í dag þar sem að laganemum var boðið í kokteilboð á laugardaginn líka þannig að dagskráin er þéttskipuð.
Halla mín er að fara í KB-banka ferð á laugardaginn. Flýgur suður kl 07:00 og til baka á miðnætti. Munar ekkert um lúxusinn á þessu liði, bara leigð rella undir þetta pakk. Mér á hinsvegar ekki eftir að leiðast þar sem að Helena mín ætlar að koma og horfa á "það var lagið" með mér. Við eigum sennilega eftir að enda slefandi drukkin syngjandi með.

Skrítið hvað ég virðist oft horfa á þætti þar sem að söngur kemur við sögu, held að það blundi í mér stjarna. Og allir þeir sem mig þekkja geta tekið undir þau orð. Ég veit ekki hve oft ég hef verið að raula með sjálfum mér og fólk hreinlega hrópað að mér "syngdu hærra" eða "syngdu meira" sem ég svo að sjálfsögðu geri.

Annars verða það fastir liðir eins og venjulega þar sem að ég verð að vinna á laugardag og sunnudag. ZiggiPé verður með mér á laugardaginn og það er vel.

Var að átta mig á að ég hef sennilega nefnt Ásgeir á nafn í flestum þeim færslum sem hingað hafa ratað, þannig að ég er að standa við minn helming;)

hef etta ekki lengra að sinni, ætla að slappa af og njóta þess að gera ekki neitt.
bæ!bæ!
JFK

Wednesday, October 19, 2005

Flutningi fyrirlesturs lokið

halleljúja....
Við héldum semsagt fyrirlesturinn í dag og það fór sem fór. Ég held ég hafi séð örla fyrir tárum hjá Pétri Dam (kennara) en ég treysti mér ekki til að fullyrða hvort að það hafi verið gleðitár eða tár vonbrigða.
Næst á dagskrá er próf á morgun og það verður uuuuuu áhugavert. Vonum bara að það gangi eins og það á að ganga.

Svo er bara að fara að styttast í helgina sem er vel. Ég ætla að skella mér í vísindaferð á föstudaginn og svo eru uppi hugmyndir um að karlaklúbburinn hittist í framhaldi af því. Held að það sé alveg kominn tími á að það verði fundur í ljósi þess að það er búið að halda tvo fundi í það heila. Og klúbburinn er að verða rúmlega árs gamall.

Gaman að sjá að fólk tók við sér og fór að commenta, ég kann því miklar þakkir fyrir. Ég er samt hræddur um að ég sé að verða of mikill nöldrari með þetta comment dæmi. Oh well.

Jæja hef það ekki lengra í bili því að ég nenni því ekki....

blæblæ, JFK

Tuesday, October 18, 2005

HM í Germany, why the hell not?

Þá er þessi dagur alveg að verða búinn. Það er í raun alveg fáranlegt hversu stutt það er til jóla og tíminn líður hratt á gervihnattaröld. Þetta er alveg jafn satt í dag og það var þegar að Icy-flokkurinn var og hét. Það sem þau voru töff.

Allaveganna þá hringdi Atli bróðir í gær, en eins og alþjóð veit eru þau að flytja til Danmerkur á næsta ári. Við spjölluðum heillengi og áttaði mig á því að ég þarf að vera duglegri að hringja í kvikindið.
Við komumst hinsvegar að því, eftir þó nokkrar pælingar, að það er ekkert voðalega langt til Þýskalands frá Danaveldi. Svo áttuðum við okkur á því að HM í fótbolta fer fram í Þýskalandi næsta sumar. Þá leið ekki langur tími þangað til að við fengum hugljómun. Hvernig væri að skella sér á leik. Það væri reyndar alveg geðveikt, en eins og Halla mín myndi segja "góður draumur maður".
Maður getur víst ekki leyft sér allt og í ljósi þess að við erum að kaupa okkur íbúð, þurfum bráðnauðsynlega að kaupa okkur bíl og þessháttar smáhluti sé ég það ekki gerast að ég fari út.

Annars hefur dagurinn liðið, erfitt að komast hjá því. Við félagarnir náðum að klára fyrirlesturinn, ég er búinn að fara á æfingu og ætla svo í skólann í kvöld að kikka á Jessup. Svo verður kvöldinu slúttað með bíóferð með henni Höllu minni.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en ætla að kveðja með hugleiðingu/staðhæfingu:

"Fólk sem les bloggið mitt getur/á að vera duglegra að commenta"

Hvað finnst ykkur?

Ykkar einlægur, síðustjóri (það er sko ég, Jón Fannar. Þetta er mín síða og ég stjórna henni; ergo:síðustjóri

Monday, October 17, 2005

Hormonar

Þá er maður mættur galvaskur í skólann. Við félagarnir (ég Ásgeir og Bjarki) náðum að berja saman vísi að fyrirlestri í gær og hittumst svo í morgun til þess að leggja lokahönd á meistaraverkið.Fyrirlesturinn er semsé um hormonaræktað kjöt og er bara alls ekki eins spennandi og það hljómar.

Anywho...
...eitthvað leiddist Ásgeiri þófið og tók sig til og sendi Pétri kennara bréf þar sem að hann vildi meina að við ættum alls ekkert að flytja fyrirlesturinn í dag. Þegar að það dugði ekki til þá tók Ásgeir upp símtólið hans Bjarka og hringdi í kallinn. Árangur Ásgeirs lét ekki á sér standa og niðurstaðan varð sú að flutningur fyrirlestursins verður á miðvikudaginn.

Þetta þýðir aftur að við eigum sennilega ekki eftir að gera neitt í þessu fyrr en á miðvikudagsmorgun og græðum þar af leiðandi ekkert á þessu. Ég held því fram að þetta sé eðlislægur andskoti og því er ekkert við þessu að gera.

Dagurinn í dag er hinsvegar þéttskipaður þar sem að mín bíður skóli til fjögur, Jessup fundur kl fimm og ræktin með honum Jóa mínum. Skipulagning mín er hinsvegar ekki til fyrirmyndar og er ég því tvíbókaður kl fimm. Ég var semsagt búinn að segja Jóa að ég kæmist í ræktina þá. Ég verð því að ganga á bak orða minna en það er allt í lagi því að ég er þannig gerður.

Anywho, segi það gott í bili,
JFK

Sunday, October 16, 2005

Helgin búin

... og ég svo gott sem stóð við stóru orðin. Þetta var semsé hinn mesta rólegheita helgi. Á föstudaginn var idol kvöld með mömmu og Höllu minni. Svo var nælt sér í DVD og Halla sofnaði áður en að myndin byrjaði, en var samt reglulega að spyrja mig hvað væri að gerast í tilteknum atriðum.

Laugardagurinn fór svo í vinnu þar sem að ég og Ziggi og Helga fórum á kostum. Doddi og Allý komu í Drezzmann og við ákváðum að fara í bíó og kaffihús. Enduðum svo að fara bara á kaffihús, þar sem að Allý skammaði Dodda fyrir að vera ekki búin að biðja sín. Ég hafði gaman að því og sat rólegur þar sem að ég var að sjálfsögðu löngu búinn að afgreiða þau mál.
Við náðum að hanga þarna til 23:30 en þá var haldið heim á leið. Ég sofnaði út frá Ben Affleck mynd og ég skora á hvern sem er að reyna að horfa á heila mynd þar sem að hann er í aðalhlutverki án þess að óska sjálfum sér mein. Good Will Hunting telst ekki með því hann er ekki í aðalhlutverki.

Sunnudagurinn fór svo í að vinna og ég og Ziggi sönnuðum en og aftur að við eigum skilið þær milljónir í mánaðarlaun sem við fáum. Settum upp hillur og ég veit ekki hvað og hvað. Nú er bara vona að Jói og Hrabba eyðileggi ekki kerfið okkar. Ég vonaði reyndar líka að ég ynni í lotto-inu um helgina en við vitum öll hvernig það fór.

Svo er ég staddur uppí skóla núna þar sem ég Bjarki og Ásgeir erum að berja fyrirlestur saman. Guð gefi okkur styrk.

Hef það ekki lengra í bili
JFK

Friday, October 14, 2005

Tvö blogg á dag,,,

...skapið í lag :D
Jæja dagur er að kveldi kominn. Ég reyndist ekkert sérlega sannspár þegar ég fullyrti að þessi skóladagur yrði öðrum fremri. Tíminn var í sjálfum sér ágætur en ég var ekki alveg í zone-inu og varla að nenna þessu. Þurfti svo í þokkabót að yfirgefa svæðið áður en ZiggiPé, Elva og Hreiðar héldu fyrirlestur. Hef samt engar áhyggjur að þeim hafi fipast við það og eflaust leyst það verkefni eins og önnur af stakri prýði.

Annars er það bara rólegheita föstudagskvöld. Ætla að horfa á Idol með mömmu og Höllu minni og þeir sem vilja gera eitthvað grín að því ættu að hafa það í huga að mamma les bloggið mitt og er ekki kona sem þið viljið fá uppá móti ykkur, nema síður sé.

Ef það er eitt sem að ég hef lært af mömmu minni og kærustu þá er það það að láta útlitið ekki blekkja. Litlar manneskjur geta gert skaða. Ég get nefnt fullt af frekari dæmum sem frekar styðja þessa fullyrðingu en ætla að láta nægja að nefna Vigdísi (og alloS þegar hún var í ham)

Helgin verður svo tekin í það að vinna í minni ástkæru búð Drezzmann sem er sveittasta búllan í bænum.

Það barst í tal um daginn að hæfniskröfurnar sem menn þurfa að uppfylla í Drezzmann eru farnar að vera ansi miklar, og mér finnst það bara ósköp eðlilegt. Síðasta viðbótin í Drezmann fjölskylduna er stórvinur minni ZiggiP en hann er með a.m.k. heilt ár í rekstrarfræði og á þriðja ár í lögfræði á bakinu.
Með þessu áframhaldi verður erfitt að manna stöður í búllunni en það er alltílagi á meðan ég og Ziggi erum þarna, við reddum þessu.

Wellster, hef það ekki lengra í bili
JFK

Föstudagur, Það er góður dagur

Jæja, þá er runninn upp föstudagur í allri sinni dýrð. Lofaður sé föstudagur.

Anywho, þá er ég búinn að fara á æfingu í dag með honum Jóa mínum. Tókum heljarinnar mikið á því og það styttist óðfluga í að við förum að taka sömu þyngdir og massaða fimmtiu og fimm ára gamla konan sem er stundum að væflast fyrir okkur.
Við komust að því að ég er búinn að léttast um eitt kíló en Jói búinn að þyngjast um eitt kg. Sem er skrítið því við erum á sama programmi. En þetta er allt í góðu því að ég mátti alveg léttast og Jói mátti alveg þyngjast.

Ráfaði inn á nýja Kastljós þáttinn. Þar var Ingibjörg Sólrún í viðtali og var að gefa sín viðbrögð við ummælum Davíðs Oddssonar. Mér fannst einn punktur hjá henni athyglisverður. Í allri þessari umræðu um Davíð og Baugsfeðga finnst mér eins og mönnum hafi verið skipt í tvær fylkingar. Annað hvort styður þú Davíð og þ.a.l. hataru Baugsfeðga, eða öfugt.
Ég segi fyrir mitt leyti að hegðun Davíðs, hvað þetta mál varðar, hefur á stundum verið óviðeigandi. Ég er hinsvegar enginn harður stuðningsmaður baugsmanna og ef að þeir hafa gerst sekir um þau brot sem þeir eru sakaðir um (og eftir standa) þá á að sjálfsögðu að refsa þeim fyrir það.


Þetta finnst mér eyðileggja pínu umræðuna sem annars er áhugaverð. Þessi fylkingaskipting er barnaleg og bíður ekki upp á skynsamlegar rökræður. Fólk á að geta haft eina skoðun án þess að vera sjálfkrafa sakað um að hafa aðra. Þetta tvennt þarf alls ekkert að haldast í hendur.

Annars bíður mín skóladagur sem ég hef tröllatrú á að verði einn sá besti hingað til. Svo er helgin framundan og ég sé fram á að hún verði með rólegasta móti og ég hlakka til.
Svo vil ég hvetja fólk til þess að kvitta í commenta-kerfið þar sem að enginn gestabók er kominn upp. Ég kenni Bjarka að sjálfsögðu um það, sem aftur kennir Pétri Leifs um það. Þannig virkar þetta fínt og allir sáttir (nema kannski Pétur).

JFK

Thursday, October 13, 2005

Önnur færsla annars dags

Jæja, eins og ég lofaði er ég að posta í annað skiptið í dag. Ég held að það sé mikilvægt að vera virkur í þessum bransa fyrstu daganna svo að maður verði tekinn alvarlega af bloggheiminum. Mér virðist hinsvegar á ferð minni um vefinn eins og þessi regla gildi ekki ef að maður hefur haldið síðu út í ákveðið langann tíma. Máli mínu til stuðnings bendi ég á allt fólkið sem ég kann ekki ennþá að "linka" á en heldur út bloggsíðu.

Í þessa gryfju ætla ég ekki að falla. Of oft hefur hápunktur dags míns falist í því að einhver af mínum "must-read" bloggurum hefur séð sóma sinn í að birta pistil. Ég hef brugðist glaður við jafnvel þó að innihald þeirra pistla hafi verið rýrt svo ekki sé sterkara að orðið kveðið. Ég staðfastlega neita að trúa því að líf vina minna sé ekki innihaldsríkara en svo að tvær vikur þurfa að líða milli færslna.

Með þessu er ég hinsvegar engan veginn að fella einhvern áfellisdóm yfir vinum mínum og kammerötum og lífi þeirra. Meira svona að góðfúslega að benda á að ef að ég get þetta, þá geta þetta allir.

Þess vegna legg ég til að það verði sameiginlegt átak allra þeirra sem að lesa þetta og halda úti bloggsíðu að fjöldi færslna aukist.

Viðurkennið það; ykkur finnst jafngaman og mér að lesa blogg, þau þurfa ekki einu sinni að vera skemmtileg.

Jón "semætlaraðgerabyltinguíbloggheiminum" Fannar

Annar í bloggi

Wellwellwell,
bloggið mitt orðið dags gamalt og ég er búinn að fá heil þrjú comment. Tvö af þeim meira að segja endurtekning en ég tek því.

Enginn skóli í dag, sem er gott, en ég náði í möppuna fyrir Jessup hjá Ásgeiri og þarf að lesa yfir það, sem er ekki jafn gott. Þetta virðist þó vera áhugavert þannig að þetta er aftur orðið gott.

Svo vorum við Halla að frétta af bíl sem við höfum áhuga á og gæti orðið til þess að ég bregði mér suður um helgina til að líta á gripinn. Það þarf þó margt að ganga upp til þess að af þessu geti orðið, en ég er fæddur til þess að leysa vandamál. Meira segja er ég annálaður fyrir það. Margir haft það að orði.

Hef þetta ekki lengra að sinni, en ég er svo spenntur fyrir nýja blogginu mínu að ég á pottþétt eftir að skrifa meira í dag.

blæ í bili
JFK

At last, I'm here

Jæja here goes.

Eitt af því leiðinlegasta sem ég geri á vafri mínu um netið er að lesa "fyrstu" bloggfærslur fólks. Þær eru allar eins; "bara prufa" "ath hvort þetta virki, meira seinna" osfrv.

Þetta ætla ég ekki að gera. Ég ætla að blogga eins og ég hafi aldrei gert annað.

Ég var að koma af fundi um málflutningskeppnina Jessup. Þetta var annar fundur af mörgum (væntanlega) og spennustigið hjá mér virðist aukast í beinu samhengi við fjölda funda. Þetta þýðir sennilega að ég kem ekki til með að halda vatni þegar að keppninni sjálfri kemur, en það er seinni tíma vandamál.

Annars er allt með því sama. Er að fara á fyrsta húsfundinn minn í kvöld og ætla að byrja á því að rífast. Lögfræðingurinn í mér leyfir ekki annað. Veit ekki um hvað ég ætla að rífast en það verður eitthvað.

Nú ætla ég að ýta á "publish post" og sjá "hvort að þetta virki"

JFK

Wednesday, October 12, 2005

Ok ok ok

fyrsta færsla tókst. Nú þarf ég bara að læra á kvikindið þannig að ég geti nýtt mér alla þá dásamlegu möguleika sem að heimur bloggsins bíður uppá. Er nú þegar búinn að tryggja mér þjónustu Bjarka og vænti þess að vera fullfær í flestan sjó eftir námskeiðið hans.

blæ í bili,
JFK